144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Ekki veit ég það af hverju hann lagði ekki fleiri kosti til en hann hafði minnihlutaálit sem hann hefði getað stuðst við. En þessi virkjunarkostur, Skrokkalda, hefur hlotið og hlaut fulla umfjöllun hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar 2, þannig að hún hefur hlotið fulla umfjöllun.

Mig langar að benda hv. þingmanni aðeins á kjarna málsins. Í umsögn Orkustofnunar segir, með leyfi forseta:

„Með því að flytja umrædda virkjunarkosti úr Þjórsá úr nýtingarflokki í biðflokk, var, að mati Orkustofnunar, markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu. Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarmans mundi aukast án þessara vatnsaflsvirkjunarkosta. Þar með yrði það tæknilega og efnahagslega öryggi og sú hagkvæmni, sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl, ekki fyrir hendi. Orka í sífelldri endurnýjun sem ekki er beisluð í vatnsföllum er glötuð meðan orku í jarðvarmalindum má að einhverju leyti (Forseti hringir.) líta á sem forða …“

Ég segi: Hver er að slátra gullgæsinni? Þarna skila fagmenn (Forseti hringir.) og faghópar ákveðinni heildarlausn, að virkja jafnhliða (Forseti hringir.) vatnsafl og jarðvarma. (Forseti hringir.) Af hverju að hunsa það?

(Forseti (ÞorS): Forseti brýnir fyrir þingmönnum að virða tímamörk.)