144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það ekkert sérstaklega flókið ef skila á efnislegri niðurstöðu um 27 kosti 1. september á næsta ári. Ég verð bara að segja, hversu mikið geta menn lifað í núinu? Við erum að fara að byggja virkjanir sem eiga að standa til áratuga og eiga að mala okkur gull, vonandi í 100 ár. Sogsvirkjanirnar eru enn þá að mala okkur gull og munu gera það um ókomin ár og örugglega í mörg hundruð ár ef menn endurnýja túrbínurnar þokkalega og smyrja þær með koppafeiti. Þannig að ég sé ekki vandamál við það. Ég held hins vegar að það sé hárrétt sem hv. þingmaður vekur máls á að með þessu fordæmi er í sjálfu sér hægt að velta hvaða virkjunarkosti sem er inn í hvaða mál sem er, hvenær sem er. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sagði hreint út áðan að hann teldi að það væri enginn vandi að bæta Skrokköldu við, þrátt fyrir að fyrir liggi frá umhverfisráðuneytinu (Forseti hringir.) að ekki sé hægt að bæta Skrokköldu við. Það er túlkun (Forseti hringir.) ráðuneytisins, sem fer með túlkunarvald laganna. (Forseti hringir.) Ja, þá er búið að skapa það (Forseti hringir.) fordæmi að það má demba Gullfossi inn næst, eins og ég hef margsinnis varað við.