144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:51]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Um hvað er deilt? Allir eru sammála um að mikil og fagleg vinna hafi farið fram hjá verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar. Í gangi er vinna verkefnisstjórnar fyrir 3. áfanga rammaáætlunar og hún á eftir að skila fullnaðarskýrslu. Hún var beðin um flýtimeðferð á átta virkjunarkostum sem hún taldi sig ekki hafa tök á að gera á viðunandi hátt nema um einn virkjunarkost. Meiri hluti atvinnuveganefndar kemur með breytingartillögu og styðst þar við faglega skýrslu sem var unnin af fjórum faghópum í verkefnisstjórn 2. áfanga sem skilaði mjög vandaðri og mikilli skýrslu. Meiri hluti atvinnuveganefndar styðst við þá miklu vinnu og þau mikilvægu gögn og kemur með þessa breytingartillögu, bætir við þeim virkjunarkostum (Forseti hringir.) sem eru nefndir í þessari þingsályktunartillögu í fylgiskjölum þar. Það er ekki eins og verið sé að taka einhverja (Forseti hringir.) aðra kosti. Allir þessir kostir (Forseti hringir.) eru nefndir í þessari tillögu.