144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Enn og aftur kveð ég mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að andmæla þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í þessu máli og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson fór yfir áðan. Verkefnisstjórn 3. áfanga er starfandi. Mér finnst þetta vera dálítið satt að segja eins og ef ráðherra eða meiri hluti þingnefndar ákveður að breyta lögum eða koma með einhverja þingsályktun, taka nokkurra ára gamla vinnu máli sínu til stuðnings en líta fram hjá því sem hefur gerst síðan. Það eru auðvitað engan veginn nógu fagleg vinnubrögð, herra forseti.

Ég verð enn og aftur að andmæla því að við séum með þetta mál á dagskrá, byggt á þessum veika faglega grunni. Það þýðir ekki að vitna hér í gamlar skýrslur, gamlar umsagnir, gamlar ályktanir. Það er svo augljóst, herra forseti, hvað er skynsamlegast að gera í þessari stöðu. Það er taka þetta mál af dagskrá og að við ákveðum það saman hér að bíða eftir því að (Forseti hringir.) verkefnisstjórn í 3. áfanga ljúki sinni vinnu eins og hæstv. umhverfisráðherra lagði til í tillögu sinni. Það er hið skynsamlega að gera í þessu (Forseti hringir.) máli, herra forseti.