144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvers vegna við erum hérna. Nú erum við væntanlega að ræða þetta, komin langt á aðra viku vegna þess að þetta er svo ægilega mikilvægt mál samkvæmt meiri hlutanum, vænti ég. Hér inni eru tveir sjálfstæðismenn og einn framsóknarmaður. Hvers vegna erum við hérna? Getur virðulegur forseti kannski útskýrt fyrir okkur hvers vegna við eigum að funda hérna langt fram á nótt til að ræða þetta mál? Auðvitað er það til þess að þreyta minni hlutann. Við vitum alveg hvaða leikur þetta er. Þá finnst mér eiginlega spurning um kurteisi að hv. þingmenn meiri hlutans sýni aðeins meiri lit í þessari umræðu. Það er ekki eins og það sé langt liðið á kvöld, virðulegi forseti, klukkan er rétt orðin sex, það er ekki mikið hér á bæ. Mér finnst hv. þingmenn meiri hlutans (Forseti hringir.) alveg geta tekið meiri þátt. Þeir hafa alltaf fengið færi á því að komast strax á mælendaskrá þegar beðið er um það og það hafa alltaf verið (Forseti hringir.) blómlegustu umræðurnar þegar þeir taka þátt. Mér finnst það ótækt, virðulegi forseti, að þeir taki ekki þátt fyrr en einhvern tímann eftir miðnætti þegar enginn er (Forseti hringir.) að fylgjast með, hvorki í sjónvarpinu né hér inni á hinu háa Alþingi.