144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er annað sem væri hægt að gera til þess að greiða fyrir þingstörfum, þ.e. í langtímasamhenginu, og það er að þjóðin fái málskotsréttinn til sín. Ef þjóðin gæti kallað til sín mál, stórmál eins og þetta vafamál um hvernig eigi að nýta orkuauðlindirnar, út af því að þingmenn geta ekki komið sér saman um vinnulag til langtímastefnumótunar í svo sem 15 ár sem þeir hafa verið að reyna, þeim tókst jú að koma sér saman um það á síðasta kjörtímabili en svo fóru allir að svíkja hver annan — þannig að ef þjóðin gæti sjálf kallað stórmál til sín og stöðvað þar af leiðandi meiri hlutann á þinginu, þjóðin er meiri hlutinn, meiri hluti þjóðarinnar er hinn raunverulegi meiri hlutinn og ef sá meiri hluti gæti stöðvað mál sem meiri hlutinn á þinginu er að reyna að hamra í gegn þá mundi meiri hlutinn á þinginu þurfa að passa sig betur og þá mundi minni hlutinn ekki hafa jafn mikið umboð til þess að stöðva mál því að þjóðin gæti alltaf tekið þau til sín. Það er verklag sem ég heyri að fleiri og fleiri þingmenn eru farnir að kalla eftir, að þetta verði bundið í (Forseti hringir.) stjórnarskrá. Ég styð það heils hugar.