144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er frétt á mbl.is sem unnin er úr óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag. Þar kemur fram að hæstv. fjármálaráðherra vilji meina það, sem er sjálfsagt rétt hjá honum, að aldrei hafi verið meiri arður af sjávarútvegi og raforkuiðnaði. Ég velti fyrir mér með hliðsjón af því hvað liggi á þessu máli, hvers vegna menn þurfi að afgreiða það núna. Nú hafa menn sett þetta í samhengi við kjaradeilur sem er fráleitt, jafnvel ef maður mundi einungis líta á tímasetningarnar. Það er ekkert sem gerir það að verkum að það liggi á að afgreiða málið. Það er hins vegar nóg af öðrum málum úti í samfélaginu sem við þurfum að takast á við núna.

Maður hefur ekki tíma í einnar mínútu fundarstjórn til þess að fara út í þær hugmyndir sem geta virkað til að laga það ástand sem ríkir á Alþingi, nú eins og svo oft áður, en ég mun nýta seinni ræðutíma til þess og legg enn og aftur til að við tökum fundarstjórn forseta (Forseti hringir.) fyrir sem sérstakt mál með fullum ræðutíma, andsvörum o.s.frv.