144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. Ásmundur Friðriksson ekki hafa mikla trú á samtalinu og sáttinni miðað við það að hann ætlar að helst að eyða tíma sínum í að velta fyrir sér hvað verði langt í að hann komist að á mælendaskrá.

Ég vil fá að taka undir það sem hér hefur verið sagt: Eru menn ekki farnir að sjá ljósið í því að við verðum að fara að ræða hér alvörumál? Við verðum að færa að ræða stöðuna á vinnumarkaði. Erum við í stjórnarandstöðunni ein um að hafa raunverulegar áhyggjur af því að í lok næstu viku stöðvist hér flugsamgöngur til og frá landinu? Erum við ein um að hafa áhyggjur af því að í 45 daga séu verkföll á sjúkrahúsunum búin að hafa veruleg áhrif á heilbrigðisþjónustuna?

Hvernig stendur á því að stjórnarliðar fella dag eftir dag tillögur okkar um það að ræða þessi mál? (Gripið fram í.) Það er engin illska í gangi. Menn eru ekkert að reyna að klekkja á ykkur. Það er bara verið að biðja um að þingið tali hér um málin sem skipta einhverju, (Forseti hringir.) mál þar sem við getum gert raunverulegt gagn.