144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í byrjun síns máls að upphafleg tillaga í þessu máli, tillagan frá hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, var um Hvammsvirkjun eina og greinargerð með tillögunni, aðallögskýringargagnið sem fylgir málinu, rökstyður mjög vel hvers vegna ráðherra komst að þeirri niðurstöðu og valdi að fylgja tillögum verkefnisstjórnar og leggja fram þennan eina kost.

Nú hefur það hins vegar gerst að þessi stjórnartillaga — sem vel að merkja er stjórnartillaga, flutt af ráðherra eftir samþykki í ríkisstjórn — er tekin í gíslingu af meiri hluta sömu ríkisstjórnar. Það er það sem er að gerast, tillagan er hér í raun að deyja drottni sínum í hinni ómálefnalegu breytingartillögu meiri hlutans sem stendur að baki sömu ríkisstjórn. Ég hef verið að reyna að rifja það upp hvort ég þekki dæmi sambærilegra hluta í huganum og ég geri það ekki.

Ég spyr hv. þingmann: Man hann eftir því að stjórnarmál, (Forseti hringir.) mál, sem flutt er af ríkisstjórn, lendi í svona hremmingum vegna framgöngu hins sama meiri hluta og stendur að baki þeirri ríkisstjórn?