144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki setið á þingi nema frá 2007, ég man ekki eftir neinu sambærilegu dæmi. Aftur á móti veit ég dæmi um að einstakir hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa verið að ámálga það við stjórnarandstöðuna hvort hún geti ekki hjálpað þeim við að koma málum í gegn, vegna þess að þeir eru í vandræðum með samstarfsflokkinn. Maður spyr: Var þar einhver svikatillaga sem átti að lauma í gegn bara til að reyna að koma henni í 2. umr. með fullum þunga og breytingum? Ég held að það hafi ekki einu sinni verið skipulagt þannig.

Það má auðvitað spyrja sig: Hvers vegna var þessi tillaga sett í atvinnuveganefnd, því að rammaáætlunin og öll umfjöllunin um hana heyrði undir umhverfis- og samgöngunefnd og það var fjallað um hana þar? Það er einhver misskilningur í gangi ef það að fjalla um rammaáætlun í verkefnaáætlun 3 og virkjunarkosti er orðið atvinnumál, að það sé orðið að spurningunni um það að nú eigi að taka skófluna upp, eins og það var orðað, að fara að framkvæma. Er nú ekki betra að vita hvers vegna maður er að moka og hvort eigi að moka áður en maður byrjar að moka?