144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála því að þetta er birtingarmynd ríkisstjórnar og meiri hluta í hreinni upplausn. Þetta er eitt af ótal dæmum sem við höfum í höndunum um það, það dæmi sem hér er á ferðinni. En þá er spurningin: Hvernig er hægt að koma vitinu fyrir þann hinn sama meiri hluta? Ég held að það sé orðið viðfangsefnið að reyna að bjarga mönnum í land.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann er gamalreyndur skólamaður: Kemur honum í hug nokkur sá lærdómur eða reynsla úr því starfi sem mætti verða að gagni í því sambandi að reyna að leiða meiri hlutanum það fyrir sjónir að hann er hér kominn út í ófæru og þarf að komast í land? Ég veit ekki hvort maður má taka þannig til orða að þetta sé eins og að eiga við óþæga krakka eða erfiða nemendur. Kann hinn gamalreyndi skólastjóri einhver ráð sem við getum reynt að vera hjálpleg með gagnvart meiri hlutanum í þessari stöðu og aðstoða þá við að byggja einhverjar brýr í land aftur?