144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það þykknar stöðugt grauturinn þegar kemur að atlögu hæstv. menntamálaráðherra að framhaldsskólunum í landinu. Nú birtast fréttir af því í fjölmiðlum að menntamálaráðuneytið hafi gefið einhverjar yfirlýsingar um það að því sé víst heimilt að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði svo lengi sem ráðherrann stilli Alþingi upp við vegg gagnvart orðnum hlut þegar sú ákvörðun hefur verið tekin.

Við höfum hér í dag kallað eftir því að hæstv. ráðherra komi hingað og geri grein fyrir þessu máli, að þetta mál verði sett á dagskrá þingsins. Það er mjög sérkennilegt að ráðuneyti tjái sig úti í bæ um athugasemdir af þessum toga þegar ekki hefur verið gerð gangskör að því af hálfu ráðherrans að koma með málið inn í þingið. Auðvitað geta ráðherrar í sjálfu sér gert allan andskotann og stillt Alþingi upp gagnvart orðnum hlut og sótt sér heimildir eftir á, en þá þurfa þeir að hafa til þess heimild. Þetta þýðir að það verður að fara (Forseti hringir.) án tafar fram hausatalning í þingsal og kanna hvort hæstv. ráðherra hefur meiri hluta fyrir slíkri (Forseti hringir.) atlögu að menntastarfi á landsbyggðinni og fjölbreyttu menntastarfi á höfuðborgarsvæðinu.