144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Eitt af því sem maður gerir þegar maður er í stjórnmálunum er að reyna að skilja hvað er á ferðinni, af hverju fólk velur málatilbúnað og tímasetningar o.s.frv. Það er eitt af því sem ég hef verið að reyna að gera varðandi þá ákvörðun að leggja fram þessa ótrúlega furðulegu og ruddalegu breytingartillögu á þessum tímapunkti. Ég veit ekki hvort maður á að reyna að lesa tengslin við ástandið í samfélaginu að öðru leyti í þá tímasetningu. Þetta er svo rakin leið til að láta umræðuna í þinginu snúast um annað en það sem er að gerast í samfélaginu og er svo grafalvarlegt.

Hér hefur verið talað um stöðuna á vinnumarkaði sem er alvarlegri en um áratugaskeið á Íslandi og svo er núna að koma í ljós, og það bara bætist við dag frá degi, að menntamálaráðherrann fer með eldi yfir framhaldsskólakerfið á Íslandi. Er það hluti af ástæðunni fyrir því að verið er að ræða rammaáætlun, eins og hér er verið að gera, að skapa skjól (Forseti hringir.) fyrir pólitíska aðför ráðherrans að sínum eigin málaflokki?