144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað ekki hægt annað en taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Við erum afar áhyggjufull um mjög margt sem er að gerast í samfélaginu, utan þessa húss hér. Ég ætla að leyfa mér að halda að svo eigi einnig við um margan stjórnarþingmanninn, að hann hafi líka áhyggjur af því ástandi sem hér er að skapast og sem skapast hefur utan þinghússins, ekki bara hér innan dyra.

Ég lýsi eftir því að sýndur verði einhver vilji til að samtal eigi sér stað á milli stjórnar og stjórnarandstöðu til að finna þessu máli farveg. Í öllu falli er ótækt að við höldum áfram svona langt inn í margar nætur ef hæstv. ríkisstjórn hyggst afgreiða hér einhver önnur mál, sem ég trúi að hún vilji gera. Þá þarf að fara að takast á við það vandamál sem hér er inni og snertir störf þingsins.