144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa orðið við tilmælum mínum fyrr í dag um að gera hlé á umræðunni meðan framlag Íslands í Eurovision væri flutt í sjónvarpinu. Það er ágæt tillitssemi við þingmenn að minnsta kosti og við áhorfendur að þetta karp þurfi ekki að fara fram þegar þjóðarviðburður af þessu tagi stendur yfir.

Ég vildi nú kalla eftir því að þó að það sé sjálfsagt að sýna því skilning að umhverfisráðherra geti ekki verið við umræðuna í kvöld sé eðlilegt að hæstv. atvinnuvegaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sé hér við umræðuna í hennar stað. Hann var umhverfisráðherra þegar þingsályktunartillagan var flutt, hann er þaulkunnugur málinu og hér liggur fyrir minnisblað atvinnuvegaráðuneytisins sem eðlilegt er að ráðherrann svari fyrir, því að það lýtur að því að málið sé ekki í samræmi við ferlið. Ég kalla eftir því að sú tillitssemi sem umhverfisráðherra (Forseti hringir.) er sýnd með því að umræðan haldi áfram þótt hún sé fjarstödd, sé viðurkennd með því að hér sé annar ráðherra til staðar. (Forseti hringir.) Mér finnst algerlega óboðlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa engan ráðherra í fyrirsvari fyrir málinu.