144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég legg til að gert verði hlé á þessari umræðu þangað til formaður atvinnuveganefndar er kominn í salinn. Í ljósi forfalla hæstv. umhverfisráðherra er það lágmarkskrafa að formaður nefndarinnar og talsmaður þessarar breytingartillögu sé til svara í umræðunni. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er næst á mælendaskrá og það gengur ekki að mínu mati að hún þurfi að halda ræðu sína án þess að hv. þm. Jón Gunnarsson sé í salnum eða einhver annar sem getur tekið sæti hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli á meðan hún er fjarri. Vel færi á því að það væri hæstv. atvinnuvegaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem mælti fyrir upphaflegu tillögunni. Ég árétta þann skilning minn (Forseti hringir.) að ekki sé hægt að halda fundinum áfram án þess að orðið sé við þessu.