144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Aðgengi að menntun er ein af meginstoðum góðra búsetuskilyrða. Ég óskaði eftir því áðan að hæstv. menntamálaráðherra kæmi hingað í þingsal til að ræða við okkur um stefnubreytingar og skipulagsbreytingar á framhaldsskólastiginu.

Stjórnarmeirihlutinn samþykkti með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 að nemendur 25 ára og eldri sem vilja sækja í bóknám gætu ekki sótt það nám í sinni heimabyggð. Núna á að fækka framhaldsskólum um landið. Þess vegna óska ég eftir því að ekki aðeins hæstv. menntamálaráðherra komi hingað til að ræða þessi mál heldur verði hæstv. ráðherra byggðamála með honum því að hér er ekki bara um breytingar í menntamálum að ræða heldur algerlega breytta byggðastefnu sem passar engan veginn við loforð og stefnuyfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar.