144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kvaddi mér hljóðs þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson hafði talað um fundarstjórn forseta því að mér fannst hann koma með mjög áhugaverða athugasemd um störf þingsins og fundarstjórn forseta, sem er sú stefna sem virðist vera í einhverjum málaflokkum að stefnumarkandi ákvarðanir séu teknar í gegnum fjárlög. Þetta var raunar rætt talsvert við síðustu fjárlagaumræðu. Í því umstangi öllu, þegar við afgreiðum fjárlögin, gefst nefnilega ekki nokkur tími til þess að taka svona mál til alvöruumfjöllunar. Ég ítreka því þá ósk mína sem ég kom með fram áðan að hv. forsætisnefnd fari yfir það hvernig eðlilegt sé að stefnumarkandi ákvarðanir — ég er ekki að halda því fram að þær feli endilega í sér lögbrot hverju sinni þegar verið er að ræða menntamál, en það er hins vegar gríðarleg stefnubreyting sem felst í þeim sameiningaráformum sem við höfum fengið að heyra af í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Og samkvæmt því svari sem ráðuneytið hefur nú birt snýst afgreiðsla þingsins á því eingöngu um afgreiðslu á fjárlögum, þannig að þingið fær aldrei tækifæri til að ræða þá stefnubreytingu. Það er umhugsunarefni, frú forseti.