144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það mál sem nú er á dagskrá, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, virðist ekki vera mikilvægara en svo að hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, sem á þó allan — mestan, skulum við segja, heiðurinn af þeim breytingartillögum sem gerðar hafa verið við málið, telur sig einhverra hluta vegna ekki þurfa að vera viðstaddur umræðuna. Ég vil því ítreka þá spurningu sem beint hefur verið til hæstv. forseta, sem er annars vegar: Er hv. þm. Jón Gunnarsson í húsi? Og hins vegar: Hefur honum verið gert viðvart um að hans sé óskað inn í þessa umræðu, ef hún er svona mikilvæg?

Ef hann ætlar ekki að koma hingað til umræðunnar legg ég til að þessu máli verði einfaldlega frestað. Hér má (Forseti hringir.) þingfundur standa til klukkan tólf. Ég er viss um að langflest okkar sem hér erum inni værum til í að setja menntamálin á dagskrá og byrja að ræða þau nú þegar í kvöld.