144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þegar hv. þm. Páll Jóhann Pálsson leitar í huga sér að orði eða hugtaki sem nær yfir ríkisstjórnina þá skýst upp orðið „gengi“. Það kann að vera nokkuð bíræfið að lýsa ríkisstjórninni með þeim hætti, en kannski er það tímanna tákn. Í nútímaíslensku hefur orðið „gengi“ öðlast þá merkingu að þar sé um að ræða hóp manna sem fer með ófriði á hendur friðsömu samfélagi. Það kann vel að vera að vaxandi hluti þjóðarinnar líti þannig á ríkisstjórnina og það er alla vega víst að einstakir stjórnarliðar eru farnir að kalla ríkisstjórnina því nafni.

Hvað má þá segja um hv. þm. Pál Jóhann Pálsson og hv. formann atvinnuveganefndar sem tekið hafa þingið í gíslingu, sem hafa með ofbeldi misbeitt lögum til þess að þvinga hér fram á dagskrá mál sem meira að segja tveir hæstv. ráðherrar eru á móti? (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Hvað vill hann kalla slíka menn fyrst ríkisstjórnin er í hans augum orðin að gengi?