144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:41]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf verið að reyna að finna einhverja samlíkingu með þessum vinnustað og því sem gerist í atvinnulífinu, ég er alltaf að verða meira og meira bit á því hvernig við verjum tíma okkar hérna. Þess vegna er ég sammála hv. þm. Helga Hjörvar þegar hann segir að við þurfum að reyna að finna botn í þetta. Mér dettur helst í hug að þegar maður var á sjó í gamla daga kom fyrir að pokamaðurinn festi ekki hnútinn nægilega vel á trollinu og það var dregið opið allan tímann og var galtómt þegar það kom um borð í bátinn aftur eftir kannski þriggja eða fjögra tíma tog. Það þótti mjög illa farið með tímann, þótti ömurlegt að lenda í því.

Mér finnst eins og við höfum gleymt að hnýta fyrir pokann í þinginu og séum að fara illa með tíma okkar. Við erum öll að tala um það, en við gerum ekkert í því, akkúrat ekki neitt. Það er það sorglega við þetta.