144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Málþóf er kerfislægt vandamál sem má leysa með því að færa málskotsréttinn til þjóðarinnar. Þangað til stöndum við í svona deilum hérna sem eru ofboðslega tímafrekar, vegna þess að hér mætast bara stálin stinn. Dagskrárvaldið er í höndum meiri hlutans. Þeir telja að það að þeir hafi fengið meiri hluta í kosningum, að vísu bara 49% af kjósendum í heildina, en af þeim sem kusu og fengu fulltrúa um 60%, þá sé bara lýðræðislegt í krafti þessara 60% að þeir hafi 100% af dagskrárvaldinu. Þeir eigi bara að fá að ráða þessu. En það er ekkert sérstaklega gott lýðræðislegt fyrirkomulag. Málþófið er kerfislægt vandamál vegna þess að það eru allir sem beita því, líka flokkar hæstv. meiri hluta, þeir gerðu það líka á síðasta kjörtímabili. Við skulum vera heiðarleg með það.

Það er til lausn á þessu máli, lausn þar sem menn geta gengið frá þessari deilu og borið höfuðið hátt samt sem áður, því að það er allt of mikið egó komið í þetta vandamál. Ég hvet þá sem standa að þessu máli og er kært um það að tala sig saman og hvet forseta til að taka málið af dagskrá þangað til þeir geta fundið lausn á þessu.