144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Menn geta túlkað mín orð eins og þeim hentar. Orðið „gengi“ er ekkert í neikvæðri merkingu hjá mér en kannski eru til þeir sem þekkja það aðeins í sambandi við einhverja neðanjarðarstarfsemi. Við erum með löndunargengi og það eru til ýmis gengi í jákvæðri merkingu, dugmestu mennirnir eru í svoleiðis gengjum, en menn geta reynt að snúa þessu á alla vegu.

Varðandi þessa saklausu tillögu sem meiri hluti atvinnuveganefndar kemur með (Gripið fram í.) byggir hún á niðurstöðu verkefnisstjórnar í 2. áfanga rammaáætlunar, einu skýrslunni sem hefur fengið löglegt ferli og tími hefur verið til að vinna. Rammaáætlun 3, (Forseti hringir.) þessi flýtimeðferð á átta kostum sem verkefnisstjórn rammaáætlunar 3 var beðin um, er ekki fullnaðarskýrsla. Þetta er eina skýrslan sem hefur löglegt ferli á bak við sig. Við byggjum þessa tillögu á því.