144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér upp í aðra ræðu mína um þetta mál, breytingu á þingsályktun um áætlun og vernd og orkunýtingu landsvæða, en auðvitað hefur megnið af þessari 2. umr. um tillögu hæstv. umhverfisráðherra snúist um breytingartillögu hv. þingmanna í meiri hluta atvinnuveganefndar. Í fyrri ræðu minni reyndi ég að ræða þessi mál út frá stóru línunum, þ.e. út frá áhrifum þessarar breytingartillögu fyrst og fremst, annars vegar á löggjöfina sem við eigum um rammaáætlun en hins vegar þeim áhrifum sem svona stefnumörkun sem hér er lögð fram, því að þetta er vissulega stefnumörkun af hálfu hv. þingmanna í meiri hluta atvinnuveganefndar, hefur á atvinnuuppbyggingu til framtíðar. Ég held að það sé engu logið þegar ég segi að nýting íslenskra orkuauðlinda, sem við getum líka kallað forsjá um jarðvarma í daglegu tali, sé eitt stærsta pólitíska ágreiningsefnið í íslenskri stjórnmálasögu undanfarna tvo áratugi.

Síðasta stóra ágreiningsefnið á því sviði mundi ég segja hafi verið Kárahnjúkavirkjun, sem var rædd lengi og ítarlega á þinginu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hefði sá virkjunarkostur verið flokkaður samkvæmt kríteríum þeim sem lagðar eru til grundvallar í löggjöf um rammaáætlun og verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur verið að vinna með, hefði líklega aldrei verið ráðist í þá virkjun. Það hefur auðvitað komið fram í ræðu og riti síðar. Hugmyndafræðin á bak við það að reyna að setja þessi mál í þetta ferli, sem síðar var staðfest með löggjöfinni sem var samþykkt hér mótatkvæðalaust árið 2011, var að komast út úr þeim ágreiningi sem einkenndi það mál, þannig að við gætum a.m.k. tekið afstöðu til þessara mála, vissulega út frá okkar pólitísku skoðunum á atvinnustefnu og umhverfisvernd, en verið nokkuð viss um það að þær faglegu rannsóknir sem þyrfti að vinna á hugsanlegum virkjunum lægju allar fyrir. Það var alveg morgunljóst á sínum tíma, þegar umræðan stóð um Kárahnjúkavirkjun, að tekist var á um að gögnin væru ekki nægjanleg. Það var meðal annars ástæða þess að farið var í þetta breytta ferli.

Það sem slær mann þegar maður les yfir þær umsagnir sem berast til hv. atvinnuveganefndar eftir að breytingartillagan kemur fram er að menn lýsa margir miklum áhyggjum af ferlinu um rammaáætlun og löggjöfinni um rammaáætlun. Ég nefni til að byrja með umsögn Skipulagsstofnunar þar sem hún setur fram sem sína fyrstu athugasemd að mikilvægt sé að því faglega ferli verði lokið. Orðrétt segir hér, með leyfi forseta:

„… telur Skipulagsstofnun að málsmeðferð breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar samræmist ekki að fullu þeirri aðferðafræði sem lögin byggjast á eins og farið er nánar yfir hér að aftan.“

Síðan er farið yfir einstaka virkjunarmöguleika sem eru nefndir og eindregið hvatt til þess að ferlinu sé lokið. Það má líka lesa úr öðrum athugasemdum eða umsögnum sem bárust, til að mynda frá heimamönnum við neðri hluta Þjórsár, frá Verndarsjóði villtra laxastofna, sem vitnar í fyrri ítarlegar umsagnir sínar og þær rannsóknir sem sjóðurinn telur að þurfi að gera á laxastofninum. Kannski hefur ekki síst verið nefnd Urriðafossvirkjun. Ég man raunar að þegar þessi mál voru til umræðu, eins og Mörður Árnason hefur bent á í nýlegri grein, nefndu ýmsir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins Urriðafoss sérstaklega sem þann virkjunarkost sem væri rétt að bíða með. Þegar hér stóð styrinn um það hvort færa ætti þessa kosti eða fara að tillögu þáverandi hæstv. umhverfisráðherra um að kostirnir yrðu skoðaðir nánar og settir í biðflokk var þetta sú virkjun í neðri hluta Þjórsár sem sérstaklega var nefnd af mörgum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal formanni flokksins, sem eðlilegt væri að bíða með, enda talsvert miklar umsagnir sem þá lágu fyrir um þau gögn sem þurfti að afla.

Komið hefur fram í umræðunni að menn hafa kosið, sem hafa um þetta rætt, að vitna í eldri gögn, niðurstöður verkefnisstjórnar í áfanga 2 svo dæmi sé tekið. Menn hafa líka kosið að vitna í gamlar ályktanir Alþýðusambands Íslands. Mér finnst rétt að við lítum á umsögn Alþýðusambands Íslands, af því að því hefur verið haldið fram í umræðunni að rammaáætlun og samþykkt hennar hafi eitthvað að gera með lausn kjaradeilna og ekki af minni spámönnum en hæstv. forsætisráðherra. Hér er umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta mál. Með leyfi forseta stendur þar:

„Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að Alþingi styðji þá breiðu sátt um fagleg vinnubrögð sem einkennt hefur alla vinnu í tengslum við undirbúning áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og mælist því til um að tillögur verkefnisstjórnar á hverju tíma séu virtar.“

Þetta er umsögn Alþýðusambandsins árið 2015. Mér hefur satt að segja fundist ótrúlegt, og þess vegna er mikilvægt að þessi umræða hafi átt sér stað, að heyra hv. þingmenn meiri hlutans vitna í gamlar ályktanir máli sínu til stuðnings. Ég velti því fyrir mér hvort nokkurs staðar annars staðar en á Alþingi þætti það boðlegur málflutningur að koma með gömul gögn. Mér þykir leitt að segja hv. þingmönnum það en almennt í opinberri umræðu er ætlast til þess að menn styðjist við nýjustu gögn og rannsóknir og fari ekki á skjalasöfn að leita sér röksemda með máli sínu.

Ég hef hlustað á hv. þingmenn meiri hlutans gera þetta hiklaust, vitna í fyrri verkefnisstjórnir, gamlar ályktanir, þannig að mér líður dálítið eins og menn séu á hlaðborði þar sem það er valið úr sem henta þykir pólitískri stefnu þess meiri hluta sem nú situr. Það er svo dulbúið sem fagleg vinnubrögð, að farið hafi verið að því sem liggi fyrir í faglegu mati, en þegar spurt er af hverju við séum að ræða þessa breytingartillögu — að mínu viti hefði augljóslega verið skynsamlegast að bíða eftir niðurstöðum þeirrar verkefnisstjórnar sem nú starfar. Ég hef ekkert minna fyrir mér í því en greinargerð hæstv. umhverfisráðherra, umhverfisráðherra Framsóknarflokksins. Hér sitja þrír hv. þingmenn flokksins í salnum og ég hef ekki enn áttað mig á því hvað kemur til að þessir hv. þingmenn styðja ekki ráðherra sinn sem í greinargerðinni, sem umhverfisráðherra leggur fram í sínu nafni og ber fulla ábyrgð á, rekur mjög ítarlega að eftir að hæstv. umhverfisráðherra óskaði eftir því við verkefnisstjórn rammaáætlunar að fara yfir tiltekið marga kosti, að mig minnir átta virkjunarkosti, þá er niðurstaða hæstv. ráðherra að leggja fram að einn kostur færist úr biðflokki í nýtingarflokk, að tillögu verkefnisstjórnar.

Ekkert sem hér hefur verið sagt hefur getað rökstutt það fyrir mér. Ég hef reynt að spyrja hv. þingmenn þegar þeir hafa farið upp í ræður hvað liggi á, hvað liggi svona óskaplega mikið á, hvaða verkefni nákvæmlega það séu sem bíði. Menn geta ekki leyft sér það, frú forseti, að koma upp með klisjur um að hjól atvinnulífsins þurfi að snúast. Það er ekki boðlegur málflutingur. Við þurfum að átta okkur á því af hverju nákvæmlega liggur á, svo mikið að hv. þingmenn meiri hlutans á Alþingi ætli sér að hunsa fagleg vinnubrögð með því að bíða eftir niðurstöðum verkefnisstjórnar. Ég horfi á hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar og biðla til þeirra að skoða hvort ekki sé skynsamlegast að við leggjum til hliðar þá kergju sem auðvitað færist yfir mann þegar maður ræðir mál sem standa hjarta manns nærri, hvort ekki sé virkilega skynsamlegast að draga þessa breytingartillögu til baka, bíða eftir niðurstöðum verkefnisstjórnar og gera þetta þá eins og lögin mæla fyrir um, þannig að ekki séu efasemdir um vinnubrögð.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er liðinn og ítreka það sem ég hef stundum sagt að ég held að sú ráðstöfun sem gerð var í lögum um þingsköp árið 2007 að stytta ræðutíma þannig að aldrei er hægt að flytja neitt sérstaklega langar ræður — ég er yfirleitt í fyrsta kafla ræðu minnar þegar tíminn (Forseti hringir.) er liðinn. Ég mun væntanlega þurfa að koma nokkrum sinnum aftur upp. En þetta er skynsamlega leiðin á þessum tímapunkti, að draga breytingartillöguna til baka, bíða eftir (Forseti hringir.) niðurstöðum verkefnisstjórnar og þá getum við tekist efnislega á um málið, en a.m.k. verið sammála um að ferlinu hafi verið fylgt.