144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka að beint lýðræði snýst ekki einungis um atkvæðagreiðslur. Að mörgu leyti tel ég að við getum nýtt það miklu meira við ákvarðanatöku okkar á fyrri stigum. Þá er ég að vitna til þess að kynna hugmyndir og lagafrumvörp á netinu, eins og stundum er vissulega gert og hefur sem betur fer orðið talsverð aukning á, og óska eftir athugasemdum. Það skiptir hins vegar máli að vinna úr þeim athugasemdum, að þær séu nýttar. Ég held að stjórnvöld geti nýtt sér ýmsar aðferðir lýðræðisins miklu meira og ekki síst í aðdragandanum. Ég held að það sé ekki endilega jákvætt að öll mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, en að efna til að mynda til rökræðukannana um stór og umdeild mál til þess að færa umræðuna nær einhverri niðurstöðu held ég að gæti verið mjög góð leið fyrir stjórnvöld til að átta sig á vilja almennings í einstaka málum.

Hvaða áhrif hefði þetta á störf þingsins? Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta hefði áhrif. Við sjáum það bara ef við horfum til þinganna í nágrannalöndum okkar að þar hefur minni hlutinn önnur tæki (Forseti hringir.) en bara það að nýta sér ræðustól þingsins í stórum og umdeildum málum.