144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnisríka ræðu þó að ég deili þeirri skoðun með henni að hún hefði að ósekju mátt vera nokkuð lengri. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar þau neyðaróp — það má eiginlega orða það svo — sem heyrast frá hinum ólíku umsagnaraðilum, sem grátbiðja hálfpartinn nefndina um að fara ekki þessa leið, að setja þetta ferli ekki í uppnám. Það vakti athygli mína að sjá að jafn ólíkir aðilar og Samband íslenskra sveitarfélaga og Alþýðusambandið og Skipulagsstofnun skyldu allir biðja nefndina þess lengstra orða að fara ekki þá leið að setja rammaáætlun í uppnám.

Ég vildi helst staldra við þann þátt í ræðu hv. þingmanns þar sem hún rakti hvað lægi á. Nú er það ekki þannig að orkuskortur sé alvarlegt vandamál á Íslandi. Í þessari umræðu hefur ekki tekist að benda mér á eitt einasta verkefni sem er í húfi ef orkukostunum, sem hér er gerð breytingartillaga um, verði ekki flýtt sem nemur einu ári. Það liggur fyrir að tillaga um 27 kosti mun koma fram 1. september á næsta ári, þannig að við erum að tala um að flýta um eitt almanaksár, ekki meir.

Það hefur enginn getað útskýrt fyrir mér hvaða nauðir reka menn til þess að fara þessa leið. Eru einhver verkefni í húfi? Ég veit ekki til að rafvæðing sveitanna sé í húfi eða aðgangur að öruggu rafmagni eða dreifileiðir þess, frekar en dreifikerfið sem er til vandræða út um land í almennri raforkunotkun. Ég hef ekki heyrt um nokkurt verkefni sem ekki er hægt að undirrita samninga um núna á grundvelli þess að verið sé að vinna að frekari orkukostum og á grundvelli allra þeirra orkukosta sem nú þegar eru í nýtingarflokki.

Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann, því hún er nú að flestu leyti fróðari um þennan málaflokk en ég: Hefur hún heyrt eitthvað slíkt? Hefur hún orðið vör við einhverja skýringu á þessum asa og óðagoti? Sérstaklega þegar haft er í huga, (Forseti hringir.) eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að við gætum verið að fórna gullgæsinni með því að hraða okkur svona því að (Forseti hringir.) verið er að fara á svig við þá ferla sem lög mæla fyrir um.