144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:24]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður er sammála mér í því að þarna séu mikilvæg gögn og samþykkir þar með að við séum ekki að fara í þau verkefni, sjálf atvinnuveganefndin, í þeirra störf.

Mig langar að vitna í umsögn frá Orkustofnun þar sem bent er á að þau gögn sem verkefnisstjórn 3. áfanga biður um, þar sem hún færir rök fyrir því að þau gögn eigi heima í umhverfismati framkvæmda, sem er næsta stig á eftir. Þar segir að rannsaka þyrfti betur áhrif virkjananna á laxfiska í Þjórsá. Slík umhverfisskoðun komi þó fyrst til álita við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, samanber 5. gr. laga nr. 106/2000.

Margar umsagnir og þar á meðal umsögn Orkustofnunar, og hún þekkir (Forseti hringir.) málin nú býsna vel, benda á þau rök að þær (Forseti hringir.) upplýsingar sem beðið er um eigi heima í umhverfismati framkvæmda sem er næsta stig (Forseti hringir.) á eftir þessu.