144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrr í dag voru greidd atkvæði um lengd þingfundar og meiri hluti þingsins komst að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að funda hér í kvöld. Við funduðum til klukkan að ganga eitt í gærkvöldi og nálægt miðnætti í fyrrakvöld. Hér hafa verið nefndafundir sem hafa hafist á níunda tímanum á morgnana og velflest okkar hafa tekið þátt í nefndafundum báða dagana. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann hyggist halda þessum fundi mikið lengur áfram, því að ég held að við viljum alveg burt séð frá öllum pólitískum markmiðum vera sæmilega upplögð og með á nótunum þegar við erum að sinna bæði þingstörfum og nefndastörfum. Hér er ekki mikið um fulltrúa meiri hlutans, þess meiri hluta sem greiddi atkvæði með lengdum þingfundi. Ég spyr forseta um áform um lengd þessa þingfundar í kvöld.