144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki alveg sögulega rétt að það sé alltaf minni hluti sem er í málþófi. Stjórnmálasagan eða þingsagan geymir ýmislegt og þar á meðal ráðherra í málþófi um nótt sem voru að koma í veg fyrir tillögu sem hefði jafngilt vantrausti á þann ráðherra.

Nú er það þannig að við höfum verið hér tvo daga eða tvo sólarhringa í röð með fundi til miðnættis eða lengur, inn í nóttina, og við höfum byrjað nefndafundi klukkan átta eða hálf níu alla þá morgna. Við eigum því að baki tvo og raunar tvo og hálfan sólarhring með 17–18 klukkustunda vinnudegi og fimm, sex tíma hvíld. Þess vegna er fullkomlega réttmætt að spyrja hæstv. forseta hvað hyggst hann halda þessu lengi áfram. Er þetta ekki að verða gott í kvöld? Ég held að forseti gerði vel og mundi reisa sig með myndarskap ef hann færi að fordæmi forseta í gærkvöldi eða undir nóttina sem tilkynnti að lokum, þráspurð að vísu, að nú yrði flutt ein ræða í viðbót og þar með væri komið nóg. Ég tel alveg nóg að hafa þriðja sólarhringinn með 16 klukkustunda (Forseti hringir.) vinnudegi fyrir okkur þingmenn.