144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég og formaður þingflokks Vinstri grænna vorum að spá í hnúta, hvort setja ætti málið í nýjan hnút, pelastikk eða fuglafit, þeir rakna kannski frekar upp en sá rembihnútur sem málið er í núna. Það hefur verið svolítið í umræðunni umhverfismat framkvæmda eða umhverfismat áætlana og mér finnst mikill misskilningur þar á ferð, hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni og fleirum. Umhverfismat framkvæmda er á forsendum framkvæmdaraðila og er einungis álit, ekki ákvörðun og stoppar ekkert af. Umhverfismat áætlana fer fram meðan virkjunarkostir eru í meðferð verkefnisstjórnar og geta þess vegna farið í opið umsagnarferli í framhaldinu, eins og gerðist með nokkra kosti þegar verkefnisstjórn 2. áfanga fjallaði um málið. Þarna er því mikill munur á.