144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er svo sem eftir öðru að undir forustu þessarar ríkisstjórnar þá skuli Ísland meira að segja vera dottið út úr Eurovision. Ég ætla nú ekki að kenna hv. þm. Jóni Gunnarssyni um það en hins vegar, vegna þess að hann hefur kvatt sér hljóðs til þess að taka til máls síðar í þessari umræðu, vil ég spyrja hv. þingmann ef hann getur gefið sér tíma og rifið sig frá hljóðskrafi við fyrrverandi formann Lögmannafélagsins og hlustað aðeins á mig, hvort það komi virkilega ekki til greina af hálfu hv. þingmanns að eiga orðastað utan funda við þingmenn stjórnarandstöðunnar um leiðir til þess að leiða í jörð þann ágreining sem hér er. Ég veit vitaskuld hvað vakir fyrir hv. þm. Jóni Gunnarssyni, hann vill ná fram ákvörðun, en ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að ná fram ákvörðun með miklu blíðari og mildari hætti sem miklu fleiri geta sætt sig við. Ef hv. þingmaður hefði ekki verið svona upptekinn við að horfa á Ísland falla út úr Eurovision þá hefði hann kannski getað hlustað á mína ræðu þar sem ég lýsti því. Ég spyr hv. þingmann af því ég veit að hann er þrátt fyrir allt (Forseti hringir.) með hjarta skátans: Er hann virkilega ekki til í að gera tilraunir til þess að hlusta á fólk og reyna að leiða fram sættir í þessu máli?