144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er svo komið að hér eru ekki nema örfáar hræður í þingsal (Gripið fram í.) og orðið mjög fámennt af þingmönnum minni hlutans, sem er til merkis um að þeir hafa ekki einu sinni nennu til þess að hlusta á það sem hér fer fram stöðugt undir umræðu um fundarstjórn forseta. Ég held að umræðuhefðin sem er viðhöfð í þessu máli sé ekki það áhugaverð.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér upp í ræðustól Alþingis og bent á að við yrðum að reyna að setjast niður og leysa þessi mál en það yrði ekki gert á þeim grunni sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur boðið upp á, að málið verði bara dregið til baka og um það verði ekkert samið, ekki sé hægt að semja um neitt, það sé þegar búið að virkja of mikið í landinu. Á meðan staðan er þannig þá höfum við lítið um að ræða, en að sjálfsögðu er ég tilbúinn til þess eins og aðrir í meiri hlutanum að setjast yfir og ræða einhverjar raunhæfar (Forseti hringir.) tillögur til lausnar á þeim ágreiningi sem er hér uppi.