144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú held ég að eigi að taka sjálfan herforingjann á orðinu, hv. þm. Jón Gunnarsson, og fresta tafarlaust fundi og gera það sem hann loksins býður upp á, að menn setjist niður og tali saman. Það er nákvæmlega það sem þarf að gera. Það er í anda þess sem ég held að sé ágætt að við munum eftir að þótt Alþingi sé vissulega margt í senn og margslungið samfélag, það er löggjafarvald og fjárstjórnarvald, pólitískur umræðuvettvangur, eftirlits- og aðhaldsaðili með framkvæmdarvaldinu, þá er það er líka vinnustaður, það er líka samfélag þar sem er ágætt að menn muni eftir því, þrátt fyrir pólitískar deilur, að sýna hver öðrum hóflega tillitssemi og virðingu. Ég flokka það undir það að gera alvörutilraunir til að komast út úr þessum ógöngum og held því fram að það sé meiri hlutanum sjálfum fyrir bestu að við reynum að finna leið í land. Það skiptir engu máli hvað forseti heldur mönnum hér lengi þriðja kvöldið í röð á kvöld- eða næturfundi ofan í það að menn byrja í blámorguninn að vinna aftur, vegna þess að hér stendur opin umræða og það er ekkert (Forseti hringir.) svikk á stjórnarandstöðunni með það að þessi málatilbúnaður mun ekki ná fram að ganga. Við höfum marglýst yfir vilja til þess að ræða (Forseti hringir.) um málsmeðferðina og þar á meðal að tillagan sjálf frá ríkisstjórn fái náttúrlega allt (Forseti hringir.) aðrar undirtektir í umræðum og við afgreiðslu en þetta mál.