144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Vegna orða sem féllu hérna áðan um viðveru þingmanna minni hlutans vil ég upplýsa að ég spurði hér frammi á skiptiborði fyrir hálftíma um viðveru þingmanna eftir flokkum og úr níu manna þingflokki Samfylkingarinnar voru sjö þingmenn í húsi en aðeins þrír úr 19 manna þingflokki Sjálfstæðisflokksins enda eru þingmenn úr stjórnarandstöðunni farnir að tala um sig sem meiri hluta því að stjórnarandstaðan er náttúrlega orðin þingmeirihluti. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa yfirgefið húsið og skilið fulltrúa sína í atvinnuveganefnd eina eftir. Þetta mál er að verða slíkt klúður að enginn úr forustusveit flokksins eða forustu þingflokksins vill láta bendla sig við það eða standa í forsvari fyrir þessum málarekstri. Þess vegna eru aðeins þingmenn Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd í húsinu, enginn annar vill kannast við króann lengur. Svo illa er komið fyrir málarekstrinum.