144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sennilega á ég að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að kalla ekki kollega sína í þessum sal háttvirtar hræður. Þó verður það að segjast að ræðan sem hann flutti hér áðan er eina ræðan sem hann hefur flutt um langt skeið þar sem hann grýtir ekki handsprengjum í allar áttir. Það lítur út fyrir að það sé að renna upp fyrir hv. þingmanni að kannski sé hægt að finna einhvers konar lausn til sátta í þessu máli. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur tekið undir með mörgum okkar um að það eigi að reyna það. Nú virðist sem hv. þm. Jón Gunnarsson sé að fikra sig inn á sömu slóð. Það væri auðvitað fróðlegt að vita hvað fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands segir um það. Er hann ekki líka þeirrar skoðunar að menn eigi að reyna að finna einhvern friðarins stig?

Hitt vil ég segja alveg skýrt að ég tel að á meðan menn reyna það eigi að taka þetta mál af dagskrá og fara í það sem skiptir máli, sem er að ræða þá alvarlegu stöðu sem er að þróast hér í samfélaginu þar sem vinnudeilur eru að bresta á og tugir þúsunda Íslendinga eru að fara í verkfall. Hvar eru ráðherrar á meðan? Þeir eru í felum. (Forseti hringir.) Þetta eru hræddir menn sem þora ekki að takast á við vandamálin. Þeir þora ekki að horfast í augu við sína eigin þjóð. Það er hv. þm. Jón Gunnarsson sem gefur þeim skjólið til þess að fela sig í.