144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé eiginlega fræðilega útilokað að þingmaður þótt ungur sé sem elst upp undir handarjaðri hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar geti talist pólitískt bláeygur. Án þess að ég vilji þó fara nánar út í tilefni þessara orða minna þá segi ég eigi að síður: Mikil er trú þín, kona.

Hv. þingmaður gerði að umræðuefni nýlega ráðstefnu sem haldin var til þess að meta virði náttúruverðmæta, þar á meðal miðhálendisins. Ég gaf nú ekki mikið fyrir niðurstöðu þeirrar ráðstefnu. Hvað var metið virði miðhálendisins? Helmingurinn af makrílkvótanum sem þetta lið ætlar að fara að gefa frá sér, 80 milljarðar. Gersamlega út í hött. Nefnið við mig þúsund milljarða, ég skal byrja að hlusta. Ég held hins vegar að það sé mjög erfitt að meta þetta nokkru sinni til fjár og veit ekki hvort það sé neitt eftirsóknarvert.

Tilefni orða minna er þó að Skrokkalda, sem er sá kostanna sem hv. þingmenn og uppreisnarsinnar sem hafa náð yfirtökum í stjórnarliðinu lögðu fram, er þeirra órannsökuðust, en hún eigi að síður tifar fótum á jaðri miðhálendisins. Ef hún verður að veruleika er líklegt að það komi raflínur, það komi vegir og síðan komi Hágöngur I og II og síðan vegur yfir Sprengisand og raflínur við Sprengisand. Það getur vel verið að niðurstaða þjóðarinnar verði að lokum að það sé í lagi, en það er ekki hægt að segja það núna. Það er spurning sem algjörlega burt séð frá þessum tillögum og í reynd hugsanlega burt séð frá rammaáætluninni sjálfri þarf að ræða sjálfstætt. Ætlum við að ráðast í mannlegar framkvæmdir inni á miðhálendinu? Ég er ekki viss um að þjóðin sé reiðubúin til þess.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Telur hún (Forseti hringir.) ekki að það sé algjörlega nauðsynlegt að við förum í þá umræðu sem í reynd hefur aldrei átt sér stað: Viljum við fara inn á miðhálendið?