144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er klukkan alveg að verða ellefu og við erum enn þá að ræða þetta mál. Það vita allir hvað það þýðir. En ókei, ef forseti með sitt dagskrárvald ákveður að halda þessari dagskrá gangandi og að við tölum fram á nótt, þá gerum við það.

Eins og hefur orðið svo bersýnilega ljóst þá er málþóf kerfislægt vandamál. Málþóf er í rauninni einu viðbrögð minni hlutans til að hafa áhrif á dagskrá. Meiri hlutinn hefur 100% dagskrárvald. Forsetinn hefur það nánast allt en þingmenn geta kallað eftir atkvæðagreiðslu um dagskrárbreytingu sem meiri hlutinn getur síðan breytt, þannig að þetta eru í rauninni átök um dagskrána. Forseti hefur það samt sem áður í hendi sér að við séum hérna áfram og þá verður bara svo að vera.