144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að upplýsa alla vega hversu lengi standi til að halda áfram þingfundi. Að því sögðu vil ég engu að síður mótmæla því að það eigi að halda áfram þennan síðasta klukkutíma. Ég tel það engan veginn málinu til góðs eða á nokkurn hátt til þess fallið að okkur takist að vinda ofan af þeim hnút sem málið er í, sem er þó svo sannarlega það sem við þurfum á að halda, ekki aðeins hv. þingmenn heldur samfélagið allt, vegna þess að það eru önnur og brýnni mál sem við þyrftum að vera að ræða.