144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka undir með síðasta hv. þingmanni um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna og það er ein af ástæðunum fyrir því að erfitt er að leyfa umfjöllun um þetta mál að taka enda í þinginu vegna þess að það gengur ekki til forseta Íslands að lokinni umfjöllun þar sem hægt væri að taka ákvörðun um að skjóta því til þjóðarinnar heldur verður endanlega samþykkt hér ef það fæst afgreitt.

Ég vil þakka forseta fyrir að hafa upplýst um að fundurinn muni ekki standa lengur en til miðnættis og vil segja um leið að þótt ég telji rétt að láta hér nótt sem nemur þá er það ekki fyrir hyskni sakir og glaður vildi ég, virðulegur forseti, ræða hér í alla nótt og allan morgundaginn og alla helgina ef í það færi, 24 tíma á sólarhring þess vegna, og starfa að því að taka á kjaramálunum í landinu, (Forseti hringir.) taka á vogunarsjóðunum og þeim fjárhæðum sem ná þarf af þeim, vinna að málum eins og ástandinu á húsnæðismarkaði o.s.frv., (Forseti hringir.) en ekki þessari þarfleysu.