144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég man ekki eftir því að nokkur ríkisstjórn á seinni tímum hafi veitt þjóð sinni jafn slaka forustu og sú sem nú situr. Þjóðin horfir framan í verkföll þar sem tugir þúsunda munu leggja niður vinnu til þess að krefjast bættra kjara og betri launa. Það liggur fyrir í ljósi sögunnar að menn hafa aldrei sett niður slíkar deilur án þess að ríkisstjórn hafi með einhverjum hætti komið að því máli.

Hvar er vettvangurinn til þess að ræða það ef ekki á Alþingi Íslendinga þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar koma saman? Hvað gerir hæstv. ríkisstjórn þegar stjórnarandstaðan hefur hér dögum saman krafist þess að fá að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem er að koma upp í samfélaginu? Jú, dag eftir dag eru felldar tillögur frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að taka þessi mál á dagskrá. Hvers vegna? Vegna þess að tveir talibanar úr liði stjórnarinnar hafa tekið þingið í gíslingu og krefjast þess að ná fram vilja sínum varðandi virkjanir sem eru að mörgu leyti ekki rannsakaðar til fulls.

Ef menn færu hér að eins og heiðursfólki sæmir og (Forseti hringir.) leyfðu mönnum að grafast fyrir um efasemdirnar þá væri hægt að ná hér sátt um afgreiðslu (Forseti hringir.) málsins, en það er enginn vilji til þess.