144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og hv. þingmaður hef ég talað töluvert um lýðræðið og aukna aðkomu þjóðarinnar og við ræddum það nokkuð á síðasta kjörtímabili varðandi stjórnarskrármálið svokallaða, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel. Aðkoma þjóðarinnar getur auðvitað verið með ýmsum hætti, í gegnum atkvæðagreiðslur og aðra aðkomu, eins og við þekkjum t.d. í sambandi við stjórnarskrárvinnuna.

Ég hef sagt það alveg eins og hér að ég áskil mér þann rétt þegar kemur til atkvæðagreiðslu fyrir mig sem þingmann, ef þjóðin mundi taka ákvörðun að loknu hefðbundnu ferli og það kæmi tiltekin niðurstaða í það, að geta sem hluti af þjóðinni verið á öndverðri skoðun. Það er auðvitað mitt lýðræði og minn vilji. Það að þjóðin leggi fyrir mig einhverja niðurstöðu þýðir ekki að ég þurfi að vera henni samþykk sem þingmaður, sem betur fer, af því að ég er aðeins partur af henni, en ég mundi að sjálfsögðu taka tillit til hennar. Eftir faglegt ferli, væri þetta fyrirkomulag við lýði, væri það hið besta mál að við hefðum öll okkar atkvæðisrétt. (Forseti hringir.) Minn atkvæðisréttur væri þá fólginn í því að taka þátt í þeirri lýðræðislegu aðkomu í þjóðaratkvæðagreiðslu annars vegar og svo hér á þingi.