144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allt aðhald sem þingið hefur sé af hinu góða, til að mynda aðhald minni hlutans í þessu tilfelli, sem hefði þá aukið vald gagnvart meiri hlutanum. Ég veit svo sem ekkert hver hlutföllin ættu að vera og ætla ekki að taka beina afstöðu til þeirra, en allt aðhald held ég að sé af hinu góða og ætti að geta gert vinnubrögðin betri. Ég held að það sé niðurstaða mín út frá þeirri spurningu sem var borin fram, hvort sem þjóðin hefði þennan rétt eða minni hluti þingmanna, af því að við þurfum aukinn aga, við þurfum að lagfæra þingsköpin. Hvernig því verður best fyrir komið höfum við ekki náð saman um.

Við vinstri græn vorum með aðrar tillögur á síðasta kjörtímabili. Við vorum ein með þær, þannig að auðvitað lentum við í minni hluta og við sættum því. Þingsköpin sem eru í gildi í dag eru því ekki alveg það sem við vildum. (Forseti hringir.) En ég held að aukinn þéttleiki og aðhald um þingið sé af hinu góða.