144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ákaflega göfugmannlegt af hv. þingmanni að segja að hann geri ekki mál úr því hvort hann flytji ræðu sína þegar flestir eru farnir að sofa, heiðarlegt og kristið fólk, eða á „prime time“. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það skipti máli fyrir þetta þing að hafa mann í sínum röðum eins og hv. þm. Róbert Marshall. Hann hefur ýmislegt umfram okkur hin. Það er líklegast enginn annar þingmaður sem hefur þá þekkingu og reynslu af miðhálendinu eins og hv. þingmaður og ég vil gjarnan njóta þess. Ég vil fá að hlusta á ræðu hv. þingmanns, tek reyndar fram að ég er alltaf bestur á nóttunni, en ég vil gjarnan að sú ræða sé flutt þegar þingmenn stjórnarliðsins eru komnir hingað og geta hlustað á hana. Þeir hafa gott af því að hlusta og sér í lagi hefur hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, gott af því að hlusta á hana, og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem fæstir eru hér í þingsal. Það er afstaða mín, herra forseti, ég er ekki að segja að hún eigi að ráða úrslitum, (Forseti hringir.) en ég vildi það gjarnan.