144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn eins og marga aðra hv. þingmenn í dag og í þessari umræðu hvað honum mundi finnast að ef þessi tillaga eða aðrar svona tillögur um virkjanir eða nýtingu á virkjunarkostum væri samþykkt á Alþingi og það væri komið þannig fyrirkomulag að þjóðin hefði málskotsréttinn sjálf, eða þegar kemur að því að þjóðin fær málskotsréttinn sjálf þannig að tiltekinn minni hluti landsmanna geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef það væri mál sem varðaði virkjunarkosti, nýtingu eða vernd eða varðaði orkunýtingarstefnu landsins mundi hv. þingmaður sætta sig við að þjóðin tæki slíkt mál til sín og niðurstaðan yrði gegn vilja þingmannsins í rauninni, mundi hann ekki samt sætta sig við þá niðurstöðu?