144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé í sjálfu sér engin þörf á því að gera miklar breytingar á lögunum. Ef menn lesa 9. og 10. gr. laga um rammaáætlun eru þær mjög skýrar um verkefnisstjórnina, bæði hvernig hún skuli skipuð og hvert verksvið hennar skuli vera og hvernig hún eigi að skila tillögum sínum til ráðherra og að ráðherra skuli byggja á því verkferli. Því skyldu menn hafa verið að byggja þetta upp með jafn flóknum hætti og umfangsmiklum og þrengja valdsvið ráðherra jafn mikið og raun ber vitni í lögunum ef menn hefðu ætlað að láta það síðan bara vera í fínu lagi að einhver kæmi með stórkostlega breytingartillögu? Með öðrum orðum, væri eðlilegt ef menn flyttu þingsályktunartillögu um byggingu tiltekins húss að gera, eftir meðferð í nefnd fyrir síðari umræðu um þingsályktunartillögu, þá breytingartillögu að fjögur önnur hús yrðu byggð? Eða eru það ekki fjögur ný sjálfstæð mál? Væri eðlilegt ef flutt væri tillaga um að gerast aðili að ríkjabandalagi að menn mundu við síðari umræðu koma með breytingartillögu um að gerast aðili að tveimur öðrum ríkjabandalögum? Eru það ekki tvö sjálfstæð mál sem þarfnast sjálfstæðrar umræðu? Það er auðvitað það sem við erum að gagnrýna hér. Ég veit og ég sé það á hv. þingmönnum að þeir skilja nákvæmlega hvað ég er að tala um.

Ef núverandi meiri hluti hefði viljað ráðast í þá virkjunarkosti sem um ræðir hefði auðvitað þurft að fara í sjálfstæðan tillöguflutning, það hefði auðvitað þurft að fara í fyrri umræðu, það hefði auðvitað þurft að fara í gegnum faglegt ferli til þess að byrja með. Svo hefðu þeir kostir verið tækir til þess að koma hérna inn í salinn til umræðu og ákvarðanatöku. Þeir kostir sem hér um ræðir eru það ekki, hafa ekki verið skoðaðir. Þess vegna er þessi breytingartillaga ótæk.