144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:21]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það vantaði reyndar ljóðið. Hvað um það. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að eftir faglega umfjöllun hjá fullskipuðum faghópum í rammaáætlun 2, þegar þeir skila tillögum sínum og ráðherra færir sex kosti úr nýtingarflokki í bið, að þar hafi verið pólitískar hendur, eða hvort hann sé sammála Orkustofnun þar sem segir að þessir kostir hafi verið fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk í meðförum Alþingis árið 2013 án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa væri hnekkt. Með því að flytja umrædda virkjunarkosti í Þjórsá úr nýtingarflokki í bið var að mati Orkustofnunar markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu. Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarmans mundi aukast án þessara vatnsaflsvirkjunarkosta. Þar með yrði það tæknilega og efnahagslega öryggi og sú hagkvæmni sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl ekki fyrir hendi. Orka í sífelldri endurnýjun sem ekki er beisluð í vatnsföllum er glötuð meðan orku í jarðvarmalindum má að einhverju marki líta á sem forða sem bíður nýtingar. Með umræddri þingsályktunartillögu, ef samþykkt verður, yrði komið til móts við þau sjónarmið.

Ég spyr hv. þingmann: Megum við ekki færa fyrir því rök að við byggjum þessa (Forseti hringir.) breytingartillögu á faglegu mati?