144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:24]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur auðvitað farið fram eitthvert faglegt mat en því er ekki lokið. Hvað sem mönnum finnst um umsagnarferlið sem fram fór og þau rök sem komu og lágu því til grundvallar að færa virkjunarkostina úr nýtingarflokki í bið, samkvæmt tillögu verkefnisstjórnar, er það öðruvísi ákvörðun en að flytja virkjunarkosti úr bið í nýtingu, vegna þess að það er ekki um aldur og ævi, það er ekki ákvörðun sem gildir um aldur og ævi, þá er aðeins verið að geyma ákveðnar hugmyndir sem enn eru í vinnslu, sem enn eru í úttekt. Virkjunarkostir sem fara úr bið í nýtingu án þess að faglegri úttekt sé lokið er óafturkræf ákvörðun. Þótt menn komi gjarnan og tali um að þá eigi eftir að ljúka umhverfismati hefur það ekki dugað í neinum tilfellum til þess að hrinda fyrirhugaðri virkjunarframkvæmd. Það er því mikill munur á þessu tvennu.

Það er miklu fleiri jarðvarmahugmyndir sem eru inni í nýtingarflokki eftir þessa umferð verkefnisstjórnar nr. 2, ef ég man rétt eru einungis tveir vatnsaflskostir á móti 14 jarðvarmakostum. Að sjálfsögðu hljóta menn að vera hugsi eftir reynsluna af Hellisheiðarvirkjun og því sem menn verða áskynja þar með orkufall og orkutap og veruleikann sem við blasir með Hverahlíð og þau vonbrigði öll, sem hafa leitt til þess að menn eru nú að tengja Hverahlíðina inn í Hellisheiðarvirkjun. Menn þurfa að velta því fyrir sér hvort það sé þess virði að ráðast í einhverjar virkjanir á Reykjanesinu. Mér finnst töluverður (Forseti hringir.) munur á því að færa úr nýtingu í bið og færa úr bið í nýtingu.