144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ákveðið vandamál sem þingið glímir við núna, það er erfitt fyrir stjórnarmeirihlutann að vera kominn hingað á réttum tíma í þingsal. Auðvitað er farið að kenna svolítillar þreytu hjá mannskapnum, greinilega, úr því að mætingin var eins og hún var, en þessi tillaga getur bjargað því. Það að samþykkja þessa tillögu getur falið það í sér að menn geta hætt á þessum kvöldfundum.

Ég hvet hv. stjórnarþingmenn til að styðja breytta dagskrá. Það er fullt tilefni til þess að taka önnur mál á dagskrá hér, setja þetta mikla deilumál til hliðar og einbeita okkur að þeirri krísu sem samfélag okkar stendur frammi fyrir á vinnumarkaði. Meiri háttar verkfall blasir við og tíma þingsins er eytt í mál sem engin samstaða er um og mun aldrei nást að fara óbreytt hér í gegnum þingið.