144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er bjarghringur til stjórnarmeirihlutans og ég óska stjórnarmeirihlutanum til hamingju með að hafa tekist að krafsa nógu mörgum þingmönnum inn í salinn hingað til að eyðileggja fyrir sér þann bjarghring. Við vitum að það skiptir máli að taka þessa tillögu af dagskrá. Eitt er að ofstopamenn í meiri hluta atvinnuveganefndar skuli hafa fundið það hjá sér að reyna að niðurlægja umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, annað er það undur að þeir skuli fá tilstyrk forustu Framsóknarflokksins í því verki. Það er stóra undrið sem við er að glíma þessa dagana.

Með samþykkt tillögu þessarar gæfist færi til þess að taka önnur og brýnni mál á dagskrá og finna sáttaleið í þessu máli sem allir, vel að merkja, þingmenn stjórnarmeirihlutans sem til máls tóku hér í gærkvöldi sögðu að væri brýnt að ná.

Er ekki kominn tími til að reyna að losa stjórnarmeirihlutann úr þeirri sjálfheldu sem hann er kominn í með þetta mál?