144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður, formaður atvinnuveganefndar, ætti bara að kveðja sér hljóðs hér á eftir ef hann þarf að segja eitthvað. Að sjálfsögðu greiði ég þessari tillögu atkvæði mitt og tel að þörf sé á, eins og hér hefur komið fram, að breyta um dagskrárefni, að taka þessa tillögu um rammann út af dagskrá og finna henni eitthvert ferli — nema það sé ætlun forseta Alþingis, sem nú situr í stólnum, að þinghaldið verði með þessum hætti. Ég hvet hann til að hugsa til síðasta kjörtímabils og rifja upp hvernig honum þótti þinghaldið vera þá, hvort hann telji það sé eitthvað sem hann vilji stefna í. Við viljum það ekki í stjórnarandstöðunni, en við höfum aðferðir til þess að stoppa þetta mál. Við erum búin að segja það og við munum standa við það, við gerum það, en við viljum ekki gera það með þessum hætti. Við viljum leita sátta og höfum boðið það. Og þó að hv. þm. Jón Gunnarsson segi að hér sé ekki hægt að ræða málin er ég honum bara alls ekki sammála. Ég trúi því að forseti geti miðlað málum.